top of page
Nýlegar færslur

Haustönn lokið


Nú er haustönn lokið hjá nemendum í valáfanganum Iðnum og tækni. Iðnir og tækni er samstarfsverkefni okkar við Árbæjarskóla sem hefur það markmið að vekja áhuga nemenda á iðn- og tæknistörfum og kynna þeim þau fjölbreyttu störf og starfstækifæri sem iðn- og tækninám hefur upp á að bjóða.

Starfsfólk Veitna, Gagnaveitunnar og OR sem hefur komið að kennslunni í haust hefur lagt sig fram um að gera kennslustundir haustsins skemmtilegar og fjölbreyttar og nemendur hafa fengið að spreyta sig sjálfir á ýmsum verkefnum við mikinn fögnuð. Hafi okkar frábæru samstarfsfélagar kæra þökk fyrir!

Á síðum hópanna hér í valmyndinni efst má sjá myndbönd nemenda úr náminu.

Í fyrsta tíma fengu nemendur fræðslu um öryggismál frá Unni Jónsdóttur, sérfræðingi í vinnuverndarmálum. Þar var fjallað um mikilvægi þess að setja sig ekki í hættulegar aðstæður í vinnu eða frítíma og hvað góður undirbúningur er mikilvægur. Þannig er hægt að koma í veg fyrir slys. Nemendur fengu ýmiskonar verkefni tengd öryggi og hópar útbjuggu sitt eigið öryggismyndband.

Nemendur fóru líka í vettvangsferð um verkstaði Veitna undir leiðsögn Bjarna Líndal Snorrasonar, viðhaldsstjóra. Þau skoðuðu meðal annars té-tengingu inn á kaldavatnslögn við Miklubraut, fylgdust með þegar rafmagnsstrengur var plægður í jörð og ljósastaur reistur á Eiðsgranda, skoðuðu endurnýjun allra lagna Veitna á Grandagarði ásamt því að skoða endurnýjun stofnæðar hitaveitu við Núpabakka. Nemendur fengu góða innsýn í fjölbreytta starfsemi Veitna,

Nemendur fræddust líka um rafmagn þegar Ársæll Freyr Hjálmsson rafvirki, Björn Friðriksson verkstjóri og Ingvar Jón Ingvarsson svæðisstjóri tóku á móti þeim í þriðja tíma vetrarins. Farið var yfir nokkur grunnatriði um rafmagn og dreifikerfið, ásamt því að stjórnstöðin var heimsótt nemendum til glöggvunar. Í verklega hluta kennslunnar fengu nemendur að spreyta sig á verkstæði Veitna við að tengja perustæði og tengil.

Svo var haldið í skemmtilega vettvangsferð þar sem hringrás vatnsins var til umfjöllunar. Nemendur heimsóttu Gvendarbrunna í fylgd Hólmfríðar Sigurðardóttur, umhverfisstjóra, þar sem Hafsteinn Björgvinsson umsjónarmaður vatnsverndarsvæða, Kristinn Héðinsson vélfræðingur, Olgeir Örlygsson verkstjóri og Páll Baldvin Sveinsson umsjónarmaður heits og kalts vatns tóku á móti hópnum og vörpuðu ljósi á leyndardóma Gvendarbrunnavatnsins. Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu, fór síðan með hópinn í hreinsistöðina í Klettagarða þar sem undraheimar skólpsins voru kannaðir í fylgd Egils Sölvasonar, Stefáns Sveinssonar og Sveins Elfars Guðmundssonar.

Jón Ingi Ingimundarson, forstöðumaður Tæknideildar Gagnaveitunnar, tók á móti nemendum í byrjun nóvember þegar þau kynntu sér ljósleiðarann. Þau fengu að prófa búnað sem tengir saman ljósleiðaraþræði, fóru í vettvangsferð í Mosfellsbæ og Kópavog með Jóni Inga og verkefnastjórunum Geir Svanbjörnssyni og Agnesi Ástvaldsdóttur þar sem aðstæður í átaksverkefni voru skoðaðar. Nemendur fengu einnig kynningu á netbúnaði inni á heimilum og þráðlausum netum ásamt því að prófa mismunandi netbúnað, gera breytingar á honum sem gaf þeim betri nethraða og greina loks truflanir frá öðrum búnaði.

Í lok nóvember fór hópurinn í vettvangsferð í Elliðaárdal. Þau skoðuðu aðveitustöðina í fylgd Björns Friðrikssonar verkstjóra og fræddust um dreifikerfið og virknina. Eins fóru þau í stauragarðinn þar sem reyndi á klifurhæfnina undir stjórn Ingvars Jóns Ingvarssonar svæðisstjóra. Í eldsmiðjunni fengu nemendur að berja járn og smíða hring úr teini undir handleiðslu Olgeirs Örlygssonar verkstjóra, Atla Dags Helgasonar vélvirkja og Sveins Rúnars Þórarinssonar málmiðnaðarmanns. Jafnframt vakti mikla lukku að fá að fara í körfubíl, en Ásgeir Helgason verkstjóri, Róbert Ari Hafdísarson verkamaður og Þórður Axel Magnússon rafvirki lyftu nemendum í hæstu hæðir og sýndu þeim ljósker og stórar perur. Að lokum var Elliðaárvirkjun skoðuð og Olgeir fræddi hópinn um sögu hennar.

Í síðasta tíma annarinnar komu tveir fulltrúar frá Félagi Fagkvenna, pípulagningarmeistari og húsgagnasmiður, og ræddu við nemendur um tækifæri og möguleika í kjölfar iðnnáms ásamt því að fjalla um upplifun sína af því að vera konur í iðngreinum. Góðar umræður sköpuðust, sérstaklega voru stelpurnar í hópnum duglegar að spyrja. Einnig kom fyrirlesari með erindi um sjálfstraust, markmiðasetningu, viðhorf og víðsýni. Hann hitti beint í mark og var hópurinn léttur í spori í lok haustannarinnar.


bottom of page